Skip to content

Stoðþjónusta í Vættaskóla

Samstarf við sérfræðiþjónustu

Miðgarður er þjónustumiðstöð Grafarvogs- og Kjalarness og veitir skólanum þjónustu s.s. sálfræðings, félags-, kennslu- og hegðunarráðgjafa.  Ef óskað er eftir greiningu eða ráðgjöf vegna vanda nemanda sendir umsjónarkennari inn tilvísunarblað til nemendaverndarráðs þar sem fjallað er um málið. Að loknum fundi eru umsjónarkennari og foreldrar upplýstir um niðurstöðu fundarins. Tilvísun til Miðgarðs er á forræði deildarstjóra stoðþjónustu. Afrit af umsókn er geymd í persónumöppu nemenda. Foreldrar þurfa að samþykkja tilvísun til Miðgarðs með undirskrift sinni.  Talmeinafræðingur er staðsettur í Miðgarði sem kemur að nemendum í 1.bekk að hausti og leggur fyrir skimun og sinnir nemendum skólans í tveimur lotum á skólaárinu.

Aðrar stofnanir og einstaklingar sem sinna greiningum og geðheilbrigðismálum barna og unglinga taka eingöngu við beiðnum frá foreldrum, oft í samvinnu við opinberar stofnanir.

Stoðkennsla

Samkvæmt lögum um grunnskóla og reglugerð um sérkennslu skal grunnskólinn laga starf sitt að þroska og getu allra nemenda sinna, þannig að hver nemandi fái kennslu við hæfi. Til að ná þessu markmiði býður skólinn upp á ýmis sérúrræði fyrir einstaka nemendur og nemendahópa. Stjórnandi stýrir starfi stoðkennslunnar.

Í stoðkennslunni er lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir. Það er gert með því að reyna að finna sem fyrst þá nemendur sem þurfa séraðstoð. Nokkur greinandi próf eru lögð fyrir heila árganga í þess­um tilgangi. Sé grunur um sértæka námsörðugleika hjá nemanda eru einstaklingsathuganir lagðar fyrir viðkomandi barn eftir þörfum, ýmist innan eða utan skólans í samráði við foreldra.

Stuðningsfulltrúar og stoðkennarar vinna með nemendum í ýmsum árgöngum. Fyrirkomulag fer eftir þörfum nemendanna og aðstæðum í árganginum og er ákveðið í samráði við umsjónarkennara viðkomandi nemenda. Árgöngum er stundum skipt í hópa nokkrar kennslustundir á viku. Stuðningsaðili fer þá inn í bekk og vinnur með umsjónarkennurum.

Stefnt er að því að sem flestir nemendur fylgi sínum árgangi í námi og geti fylgt námskrá síns árgangs. Til að svo megi vera er afar mikilvægt að nemendur nái tökum á lestrinum sem fyrst, enda er hann undirstaða annarra námsgreina.  Því er mikil áhersla lögð á lestrarnámið í stoðkennslunni.  Jafnframt er gott foreldrasamstarf mjög mikilvægt til að árangur náist.. Nemendur sem af einhverjum orsökum geta ekki fylgt námskrá í bekk eða eru í sérúrræði vinna samkvæmt einstaklingsnámskrá sem unnin er í samráði við foreldra af stoðkennara og umsjónarkennara.

Borgasel sinnir nemendum í 1. - 4. bekk í Borgum, Námsver á miðstigi er fyrir nemendur í  5. - 7. bekk í Borgum.  Engjasel sinnir nemendum  í 1. 4. bekk í Engi.  Áhersla er lögð á lestur, íslensku og stærðfræði í námsverum skólans.

Valver á unglingastigi sinnir nemendum sem af einhverjum orsökum eiga erfitt með að vinna í bekk. Nemendur eru með einstaklingsnámsskrá.

Umsókn um aðstoð

Hafi foreldrar áhyggjur af námsframvindu  barns  síns geta þeir snúið sér til umsjónar­kennara barnsins. Hann hefur oftast forgöngu um að óska eftir sérstakri aðstoð eða greiningu og leggur þá fram rökstudda beiðni til nemendaverndarráðs.  Við greiningu vandans er tekið mið af mati umsjónarkennara, skólaprófum, samræmdum prófum, prófum stoðkennara og í sumum tilfellum mati annarra sérfræðinga, s.s. sálfræðinga og lækna. Út frá greiningu þessara aðila eru námsmarkmið sett og viðfangsefni valin.  Ævinlega er haft samráð við foreldra um skipulag og framkvæmd stoðkennslu.

Stoðkerfi

Skólinn leggur áherslu á virkt og sterkt stoðkerfi. Við skólann starfa hjúkrunarfræðingur og námsráðgjafi. Skólinn hefur aðgang að félagsráðgjafa, sálfræðingi, hegðunarráðgjafa og talmeinafræðingi sem starfa í Miðgarði. Í nemendaverndarráði sitja auk stjórnenda skólans, sálfræðingur, félagsráðgjafi, hjúkrunarfræðingur og námsráðgjafi. Skólinn leggur áherslu á að kynna stoðkerfi sitt vandlega í skólanámskrá sem er birt á heimasíðu skólans og í ársskýrslum skólans.