Skólareglur Vættaskóla

Skólareglur

Í Lögum um grunnskóla 2008/91, 30. grein segir;  „ … hver skóli setji sér skólareglur.  Í skólareglum skal m.a. kveðið á um almenna umgengni, samskipti, stundvísi, ástundun náms og heilbrigðar lífsvenjur.  Þá skal í skólareglum koma fram hvernig skólinn hyggst bregðast við brotum á þeim.“ 

Reglugerð um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum nr. 1040/2011 kveður nánar á um hlutverk skólareglna og skyldur starfsfólks skóla, nemenda og foreldra. 

Í 3. grein segir m.a. að starfsfólki beri að stuðla að jákvæðum skólabrag og starfsanda í öllu skólastarfi og góðri umgengni. Starfsfólk skal sýna nærgætni og gæta virðingar í framkomu sinni gagnvart nemendum, foreldrum og samstarfsfólki og gæta þagmælsku nema þegar um er að ræða tilkynningarskyldu gagnvart barnaverndarlögum. 

Í 4. grein segir m.a. að nemendur beri ábyrgð á eigin námi, framkomu sinni, háttsemi og samskiptum við skólasystkini og starfsfólk skóla. Nemendur eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum sem þá varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra.

Í 5. grein segir m.a. að foreldrar beri ábyrgð á uppeldi barna sinna. Foreldrar bera ásamt börnum sínum ábyrgð á hegðun þeirra og framkomu gagnvart samnemendum og starfsfólki skóla og eiga að bregðast við afleiðingum hegðunar barna sinna í skóla. Foreldrar eiga að gæta hagsmuna barna sinna og ber að stuðla að því að þau stundi nám sitt. Þeim ber einnig að fylgjast með námsframvindu barna sinna í samvinnu við kennara. Foreldrum er skylt að vinna að lausn mála í samstarfi við skóla, sérfræðiþjónustu og skólayfirvöld ef misbrestur verður á hegðun eða framkomu barna þeirra.

Í reglugerðinni er einnig kveðið á um mikilvægi þess að ávallt skuli leita samstarfs við foreldra nemenda um úrlausn mála og að skólastjóri skuli sjá til þess að atvik mála séu skráð og varðveitt í skólanum.  Í Vættaskóla verða brot á skólareglum skráð í Mentor þar sem eðli brots er útskýrt á hnitmiðaðan hátt.  Haustið 2012 voru endurskoðaðar Verklagsreglur skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs um þjónustu við grunnskólanemendur með fjölþættan vanda.  Þessar verklagsreglur taka við ef skólareglur duga ekki til eða ákvæði þeirra eru fullreynd.  Verklagsreglunum er ætlað að skapa vinnulag sem tryggir skilvirka samvinnu stofnana Reykjavíkurborgar við vinnslu mála þar sem vandi nemenda er alvarlegur og fjölþættur.

Í Vættaskóla gilda eftirfarandi reglur og viðurlög við brotum á þeim fyrir nemendur:

Almenn umgengni, samskipti og háttsemi:

 • förum eftir fyrirmælum alls starfsfólks
 • sýnum hvert öðru vinsemd, virðingu og tillitsemi
 • sýnum góða umgengni og borðum á svæðum sem til þess eru ætluð í skólanum
 • forðumst hlaup og hnoð
 • förum úr skóm í anddyri og tökum ofan höfuðföt á kennslutíma og í matsal
 • höfum slökkt á raftækjum á kennslutíma, notum ekki myndavélar eða upptökutæki án leyfis á skólatíma
 • vegna slysahættu er notkun hvers kyns hjóla, s.s. reiðhjóla, hjólabretta, hlaupahjóla, línuskauta og vélknúinna ökutækja óheimil á skólalóð á skólatíma. Fyrrnefnd farartæki skulu geymd í hjólastöndum og vera læst á ábyrgð eiganda. Samkvæmt lögum ber að nota þar til gerðan öryggisbúnað á farartækjum
 • snjókast er aðeins leyfilegt á afmörkuðum svæðum á skólalóð, þ.e. fyrir neðan hús, austanmegin í Engi og við enda íþróttahúss, sunnanmegin í Borgum
 • verum á skólasvæði á skólatíma
 • stöndum vörð um eigur skólans og allra sem þar starfa
 • ofbeldi er ekki liðið í Vættaskóla

Viðurlög við brotum á reglum varðandi umgengni og samskipti:

Ætíð skal leita eftir samstarfi við forsjáraðila um úrlausn mála.  Gæta skal þess að viðbrögðin séu í jafnræði og samræmi við brotið.

Starfsmaður ræðir við nemanda og gefur honum tækifæri til að bæta ráð sitt

Ef nemandi virðir ekki skólareglur þrátt fyrir aðvaranir og áminningar má grípa til eftirfarandi viðbragða:

 • nemandinn tekinn úr aðstæðum til að fást við önnur viðfangsefni
 • ef vísa þarf nemanda úr kennslustund skal hann bíða á skrifstofu skólans þar til viðkomandi kennari hefur tækifæri til að leysa málið með nemanda. Ef viðunandi niðurstaða næst ekki skal kennari vísa málinu til umsjónarkennara/stjórnanda
 • nemanda vísað tímabundið úr kennslustundum í ákveðinni námsgrein
 • nemanda vísað heim í samráði við forsjáraðila þann skóladag.  Fundað með forsjáraðila daginn eftir
 • óæskileg tól og tæki verða gerð upptæk ef þurfa þykir
 • ef nemandi verður uppvís að því að beita hvers kyns ofbeldi taka við verklagsreglur þar að lútandi, s.s. eineltisáætlun skólans eða Verklagsreglur vegna þjónustu við grunnskólanemendur með fjölþættan vanda (SFS og velferðarsvið sept. 2012).
 • við alvarleg brot getur skólastjóri vísað nemanda úr skóla í allt að fimm daga
 • ef um ótímabundinn brottrekstur er að ræða taka skólayfirvöld (SFS) við máli nemandans

Reglur um stundvísi og ástundun náms:

 • verum ætíð stundvís, mætum á réttan stað með nauðsynleg gögn meðferðis
 • veikindi á að tilkynna fyrir fyrstu kennslustund að morgni og ekki eru gefin leyfi eftir á
 • virðum vinnufrið allra
 • stundum námið eftir bestu getu í samvinnu við kennara og foreldra

Viðurlög við brotum á reglum um stundvísi og ástundun náms

Skólasóknareinkunn lækkar í hvert skipti sem nemandi fær fjarvist (-0.50) eða kemur of seint

(-0.25).

Aðhald og upplýsingar til forsjáraðila verða sem hér segir:

 • Einkunnin 8.0 - Þegar nemandi er kominn niður í einkunnina 8.0 mun umsjónarkennari tala við hann sérstaklega og hringt verður í forsjáraðila.
 • Einkunnin 7.0 - Þegar nemandi er kominn niður í einkunnina 7.0 verða hann og forsjáraðilar hans boðaðir á fund með umsjónarkennara og deildarstjóra/næsta stjórnanda.
 • Einkunnin 5.0 - Þegar nemandi er kominn niður í einkunnina 5.0 verða hann og forsjáraðilar hans boðaðir á fund með umsjónarkennara og skólastjóra og málinu vísað til nemendaverndarráðs.
 • Skráningar í Mentor eru ekki leiðréttar ef liðin er meira en vika frá skráningu.
 • Nemendur á unglingastigi geta sótt tvisvar á skólaárinu um afskriftir fjarvista, einu sinni á önn og með samþykki forsjáraðila.
 • Nemendur  hefja hvora önn með 10 í skólasóknareinkunn.  Skólasókn gildir því 50% á hvorri önn.  
 • Í 10. bekk að vori geta nemendur einungis útskrifast með einkunnina 10 í skólasókn ef þeir hafa fengið 10 í skólasókn fyrir báðar annirnar.

Veikindatilkynningar þurfa að berast áður en kennslustund hefst. Einnig er hægt að skrá veikindi í mentor. Hægt er að skrá daginn í dag og morgundaginn ef það er vitað. Skráning þarf að hafa borist áður en kennsla hefst.

Leyfi heilan dag eða í nokkra daga þarf að sækja um með fyrirvara. 

Skrifleg eyðublöð eru á skrifstofu og hægt að prenta út af heimasíðu.

Einnig er hægt að sækja um rafrænt https://www.vaettaskoli.is/timabundin-undanthaga-fra-skolasokn-rafraent

Hollusta og heilbrigðar lífsvenjur:

 • hugum að hollri næringu og neytum hollrar fæðu í skólanum
 • mætum úthvíld í skólann
 • notkun tóbaks og/eða annarra ávana- og fíkniefna er ekki leyfð í eða við skólann eða nokkurs staðar þar sem nemendur eru á vegum skólans

Viðurlög við brotum á reglum um hollustu og heilbrigðar lífsvenjur:

 • Ef nemandi kemur ítrekað með óhollt nesti eða nemandi er ítrekað vansvefta mun umsjónarkennari hafa samband við forsjáraðila og benda á mikilvægi hollrar fæðu og hvíldar fyrir grunnskólabörn.  Ef ástand breytist ekki þrátt fyrir tilmæli umsjónarkennara tilkynnir hann málið til nemendaverndarráðs.
 • Starfsfólk hefur heimild til að taka hvers konar óhollustu, t.d. sælgæti og gos, af nemanda á skólatíma. Nemendum verður gert að henda tyggjói á skólatíma.
 • Nemandi sem verður uppvís að neyslu hvers konar tóbaks, rafretta og/eða annarra ávana- og fíkniefna verður vísað heim og skal mæta ásamt forsjáraðila til fundar við stjórnanda næsta skóladag.
 • Ef nemandi verður uppvís að neyslu fíkniefna verður farið eftir Verklagsreglum vegna þjónustu við grunnskólanemendur með fjölþættan vanda (SFS og velferðarsvið sept. 2012).

   

Samþykktar skólareglur á kennarafundi 5. apríl 2017

Bornar undir skólaráð í apríl 2017 og samþykktar

Prenta | Netfang