Skip to content

Páskakveðja frá skólastjóra

Kæru foreldrar/forráðamenn, nemendur og starfsfólk Vættaskóla

Þá er langþráð páskaleyfi fram undan og undir venjulegum kringumstæðum hvetti ég fólk til þess að ferðast um landið, njóta samvista við fólkið sitt og rækta vináttuna.  En nú er þessu öðruvísi farið og það reynir á okkur öll að gera páskana að góðri samverustund með okkar fólki meðan samkomubann ríkir.

Þessar þrjár vikur með skertu skólahaldi hafa verið afar lærdómsríkar fyrir okkur öll og ég er ótrúlega þakklát fyrir starfsfólkið hér í Vættaskóla sem af æðruleysi og jákvæðni hefur tekist á við þetta krefjandi og öðruvísi verkefni.  Ein helsta áskorunin í skólastarfinu er að halda takti þrátt fyrir undarlegt ástand og óvissu sem ríkir í samfélaginu. Allt bendir til þess að enn sem komið er hafi skólastarfið gengið vonum framar.

Ég er einnig þakklát foreldrum/forráðamönnum fyrir samstarf og hvatningu.  Nemendur eiga líka hrós skilið, það getur reynst mörgum erfitt þegar rútínan breytist og nemendur geta ekki gert hlutina eins og þeir eru vanir, mega bara hitta fáa og ekki heilsa upp á félaga sína í næstu stofum.

En öll él birtir upp um síðir og ég hef þá trú að við munum komast í gegnum þetta allt saman.

Nemendur eru enn og aftur hvattir til að leggja sig fram um að koma sér upp rútínu og halda henni í páskafríinu. Reglulegur svefn, hreyfing og slökun yfir daginn eru góð leið til halda orkustiginu uppi og gera okkur auðveldara að fara aftur á stað þegar skólastarfið fer aftur í gang eftir páskafrí.

Ég minni á að þriðjudagurinn 14. apríl er engin kennsla en skólastarf hefst aftur 15. apríl og má gera ráð fyrir að skipulagið verði með svipuðu sniði eins og undanfarnar vikur en þó með þeim breytingum að við stefnum að því að lengja tíma 1.-4. bekkjar í skólanum og auka við fjarkennslu í 5.-10. bekk.

Allar nánari upplýsingar verða sendar til foreldra/forráðamanna í tölvupósti og birtast á heimasíðu og facebook-síðu skólans.

Með ósk um gleðilega páskahátíð

Þuríður Óttarsdóttir

skólastjóri Vættaskóla