Skip to content

Slys og veikindi

Veitt er fyrsta hjálp í skólanum og minniháttar slysum sinnt. Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð eða á slysadeild skulu foreldrar/forráðamenn fara með barninu. Mikilvægt er að skólinn hafi öll símanúmer sem hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins.  Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt í skólanum.

Ef barn er greint með alvarlegan sjúkdóm sem getur stefnt heilsu/lífi þess í bráða hættu er nauðsynlegt að skólaheilsugæslan viti af því. Hér er átt  við sjúkdóma eins og t.d. sykursýki, ofnæmi, flogaveiki og blæðingarsjúkdóma.

Í reglum Reykjavíkurborgar varðandi endurgreiðslur vegna slysa og/eða tjóns er nemendur kunna að verða fyrir á skólatíma segir m.a.:

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar greiðir reikninga vegna komu nemenda á slysadeild vegna meiðsla sem orðið hafa í skóla eða á skólalóð á skólatíma og í ferðum/ferðalögum á vegum skóla. Aðeins er um tvær fyrstu komur að ræða.

  • Reikningar vegna stoðtækja eru ekki greiddir
  • Kostnaður vegna flutnings nemenda milli skóla og slysadeildar er greiddur.
  • Tjón á eigum nemenda s.s. fatnaði, gleraugum o.þ.h. er ekki bætt nema það verði rakið til mistaka eða sakar starfsmanna borgarsjóðs sem við skólann starfa eða vegna vanbúnaðar skólahúsnæðis.
  • Um slysatryggingar starfsmanna Reykjavíkurborgar vegna slysa í starfi og vegna slysa utan starfs vísast til reglna samþykktra í borgarráði 05.06.1990.
  • Tannviðgerðir á nemendum tilkomnar vegna slysa í skóla eða á skólalóð á skólatíma eru endurgreiddar foreldrum/forráðamönnum að hluta af Tryggingastofnun ríkisins. Það sem eftir er greiðir borgarsjóður, þó ekki hærri upphæð en kr. 100.000,- vegna einstaks slyss. Skóla- og frístundasviði er heimilt að semja um að kostnaðarþátttaka Reykjavíkurborgar vegna tannviðgerða sem eru afleiðing slyss í grunnskóla gildi í allt að 3 ár eftir að grunnskóla lýkur. Samning þennan skal gera eigi síðar en 6 mánuðum eftir slys. Komi fram mat frá tannsérfræðingi innan þriggja ára eftir að grunnskólagöngu lýkur um að nauðsynlegt sé að gera tannviðgerðina síðar en fram kemur hér að framan, er Skóla- og frístundasviði heimilt að semja um að framlengja gildistíma í allt að tvö ár til viðbótar.

Reglur þessar eru samdar í samráði við Borgarlögmann.